14. júlí. 2020

Stjórnandi í stafrænni umbreytingu stundum einn á báti

Fyrirtæki eiga það til að gera þau mistök að ráða einhvern til að stýra stafrænni umbreytingu á rekstrinum, en starfsmaðurinn verður síðan einn á báti í vegferðinni. Það gerir það að verkum að hann á erfitt með að vinna vinnustaðamenninguna á sitt band. „Yfirleitt er vinnustaðamenningin stærsti þröskuldurinn í umbreytingarverkefnum,“ segir Eyþór Ívar Jónsson, lektor við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn (CBS), sem jafnframt er í forsvari fyrir stjórnendaskólann Akademias.

Skólinn býður meðal annars upp á námskeiðið Leiðtoginn og stafræn umbreyting.

Eyþór Ívar, sem kennir meðal annars námskeiðið Viðurkenndir stjórnarmenn, segir að það þurfi að mennta stjórn fyrirtækja, rétt eins og starfsmenn, til að þeir hafi getu til að takast á við verkefnið. „Það er oft þannig að enginn skilur þann sem á að sjá um stafræna umbreytingu og þá einangrast hann,“ segir lektorinn og nefnir að stjórnin verði að vera samræðuhæf um framtíðarstefnu fyrirtækisins, „því að lokum er það stjórnarinnar að taka ákvörðun um stefnuna.“

Hann segir að til að fá starfsfólkið með í vegferðina þurfi að leyfa því að taka þátt í henni, svo starfsfólki finnist það vera hluti af vinnunni. „Það er um að gera að nýta fólk sem þekkir þennan heim vel, en er ekki í lykilstöðum. Stafrænt læsi er ekki háð stöðu innan fyrirtækisins,“ segir hann og nefnir að slíkir starfsmenn geti verið kyndilberar, sem hjálpi öðrum að skilja vegferðina. „Það er mikilvægt að búa til slíka menningu,“ segir Eyþór Ívar og bætir við að því fleiri kyndilberar innan fyrirtækisins sem samstarfsmenn horfi til, því hraðar gangi umbreytingin.

Hugsað í „kubbum“

Hann segir að fyrirtæki eigi það til að gera þau mistök að horfa á stafræna umbreytingu í „kubbum“, eins og að færa tiltekið verkefni á stafrænt form, í stað þess að horfa heildstætt á stafræna umbreytingu fyrirtækisins og spyrja hvaða áhrif hún hafi á reksturinn. Enda snúist umbreytingin um að skapa verðmæti fyrir viðskiptavini til framtíðar.

Eyþór Ívar segir að það hafi vantað „talsvert upp á að Íslendingar séu stafrænt þenkjandi,“ borið saman við Norðurlöndin.

Eyþór Ívar segir að það hafi vantað „talsvert upp á að Íslendingar séu stafrænt þenkjandi,“ borið saman við Norðurlöndin. Það sé okkur „þó til happs að við séum yfirleitt fljótari í umbreytinguna,“ þegar við kveikjum á perunni. Íslendingar vinni hratt og „hjarðhegðun gerir það verkum að allir eru komnir í bátinn, þegar hafist er handa af kappi.

Á námskeiðum Akademias er fengið leiðandi fólk á sínu sviði til að miðla af reynslu sinni. Oft flytji 20 forstjórar, stjórnarmenn, sérfræðingar og aðrir erindi, ásamt því að kennari miðli fræðilega hlutanum, til að skapa heildstæða sýn á námsefnið.

Þurfa Asíu-þjálfun

Akademias verður til dæmis með námskeið í haust um tækifæri í Kína og stafræn viðskipti. Eyþór Ívar segir að í Danmörku hafi viðskipti verið byggð upp með skipulögðum hætti, við Kína og önnur lönd í Asíu. Það hafi ekki verið mikið um það hérlendis, nema í tilviki fiskútflutnings. „Kína er stórveldi og skiptir máli í viðskiptalegu samhengi. Það er mikilvægt að þjálfa íslensk fyrirtæki og stjórnendur þeirra um þennan heim.“

„Kína er stórveldi og skiptir máli í viðskiptalegu samhengi.“

Eyþór Ívar segir að Kínverjar búi í allt öðrum stafrænum heimi en Vesturlandabúar. „Þeir nota allt aðra miðla,“ segir hann. Til að markaðssetja til Kínverja þurfi að nota aðra samfélagsmiðla og verslanir þurfi að bjóða upp á greiðslumiðlanir sem Kínverjar kjósi að nota, annars sé hætta á að þeir leiti annað.

Hann segir að áherslur Akademias séu talsvert aðrar en þekktist áður á Íslandi. Um sé að ræða eins konar fyrirtækjaskóla, sem hjálpi til við að þjálfa og mennta starfsmenn til að takast á við áskoranir framtíðarinnar. Skólinn eigi ekki í beinni samkeppni við aðra á markaðnum. „Ég lít á okkur sem kjörinn samstarfsaðila við fyrirtæki og háskóla,“ segir Eyþór Ívar og nefnir að hann hafi lagt áherslu á umbreytingu í menntun, í sínu starfi hjá CBS og það geri hann einnig hjá Akademias.

Markaður/Fréttablaðsins, júlí 2020

 

Til baka